Hvert liggur þessi vegur?

vegur 

Hvert liggur þessi vegur

sem þið leggið handa vélum

um löndin þver og endilöng,

um öræfi sem byggð?

Hvar er kirkja huldufólksins?

Hvar er klettur smárra dverga?

Hvar er lækurinn hjá bænum?

Hvar er lindin silfurskyggð?


Hvert liggur þessi vegur

sem þið leggið handa vélum?

Hvar er mýrarbýli jaðraka?

Hvar er mjaðarjurt og sef?

Hví heyrist ekki lengur

í hrossagauk og spóa?

Hví stökkva engin köll út

um stelksins rauða nef?


Hvert liggur Þessi vegur

sem þið leggið handa vélum?

Hvar er þögnin? Hvar er kyrrðin

sem þér kenndi að dreyma og þrá?

Hvar er lágvær þytur bjarka?

Hvar er blómkyljunnar vísa?

Hvar er löðurhvíti fossinn

sem þú lærðir söng þinn hjá?


Í gráu malarryki

við gnatan stáls og hjóla

að kvikubúum lífs þíns

hefur komið einhver styggð.

Hvert liggur þessi vegur

sem þið leggið handa vélum

um löndin þver og endilöng,

um öræfi sem byggð?


     Ólafur Jóhann Sigurðsson



Eldgamla Ísafold

fjallkona 

Eldgamla Ísafold,

ástkæra fósturmold,

fjallkonan fríð.

Mögum þín muntu kær,

meðan lönd girðir sær

og gumar girnast mær,

gljáir sól á hlíð.

 

Eldgamla Ísafold 

ástkæra fósturmold, 

Fjallkonan fríð. 

Ágætust auðnan þér 

upp lyfti biðjum vér, 

meðan að uppi er

öll heimsins tíð.

            Bjarni Thorarensen


Sumardagur

 ha1509r

Sólin: stór rauður sleikibrjóstsykur

Skýin: þeyttur rjómi

Aldan: hlæjandi smástelpa


Þú

í fjörunni

bakar sandkökur

hún eltir þig

lengra, lengra

upp undir malarkambinn

gleypir kökurnar

eina eftir aðra

og hrekkjótt

skvettir á

þig


Steinarnir brosa líka.

 

                   Vilborg Dagbjartsdóttir


Hið kvekkta tré

Snemma í vor gægðist tré af sjálfsdáðum og vegna sólar 0000

úr berki sínum,

eftir að það hafði verið niðursokkið í draum sinn                            

í allan vetur.

Þegar tréð fann hlýju, í apríllok, áræddi það að bruma,

fálmaði með lauf út í vor sem draumarnir sögðu því frá ...

En hret kom og tré er á vissan hátt annað en snigill,

það gat ekki dregið laufið aftur inn og kól.

Sólin endurtók kossinn og sagði árvisst með yl mánuði síðar:

Þér er óhætt að þrífast, tré, nú er loks komið sumar.

En það stóð samt innan um blóm, hálflaufgað fram á haust.

Vetur er tími hugsana, drauma og svefns:

Trén dreymir þá í myrkum safa nýja tíð, ljósa,

handan við langa leiðslu

meðan dimman ríkir og sú orka fæst sem vekur lífið hvert vor

og leiðir það inn í gleymsku gleði og sólar.

Laufgast tréð þá næst, glatt og grænt og frjálst,

eða hikar það héðan í frá

og geymir laufhafið innra með sér, svart,

skorpið og leynt, hið hvekkta tré.

                                                                 Guðbergur Bergsson 

 


Sorg (vorið 1960)

Eins og blóm án blaða                                            33613146

söngur án raddar

skyggir dökkur fugl heiðríkjuna.

Vorið, sem kom í gær,

er aftur orðið að vetri.

                   Magnús jóhannsson

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband