Nú súpa Vestfirðingar seyðið af eigin mistökum

untitledÞEGAR Halldór E. Sigurðsson, þáverandi samgönguráðherra, opnaði Djúpveginn formlega við Hvítanes 1. október 1975, var hátíð á Vestfjörðum. Eftir það átak bjuggust margir við að Vestfirðingar myndu standa saman og einhenda sér í vegagerð á svokallaðri Vesturleið. Slá tvær flugur í einu höggi með því að tengja saman firðina frá Ísafirði og suður úr með heilsársvegi og vinna sig út úr fjórðungnum um leið svona aukalega. Því miður báru menn ekki gæfu til þess. Þess í stað kom það eins og skrattinn úr sauðarleggnum, eftir mikil átök á Fjórðungsþingi í Reykjanesi 1976, að mæla með því að leggja heilsársveg yfir Steingrímsfjarðarheiði.

Til kvaddir norskir sérfræðingar í samgöngumálum höfðu þá lagt á það áherslu að tengja bæri hinar vestfirsku byggðir saman eins mikið og hægt væri. Ekki orð hjá þeim um Steingrímsfjarðarheiði. Vegagerðin sagði: »Tenging milli Strandasýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu þykir þó eðlileg þegar samgöngur innan hvers svæðis og tenging þeirra við aðal vegakerfi landsins er komin í viðunandi horf.« (Tenging Inn Djúps 1976.) Þá var byggður vegur á röngum tíma og röngum stað.

Engum heilvita manni hafði þá dottið í hug annað en sumarvegur kæmi í fyllingu tímans yfir Steingrímsfjarðarheiði, þegar allt annað væri búið. Að Strandamenn þyrftu að komast á Ísafjörð á vetrum til að hitta skattstjóra sinn og skreppa í búðir í þeim góða kaupstað, virkar í dag eins og hver annar brandari. Strandamenn hafa nefnilega aldrei tilheyrt hinum eiginlegu Vestfjörðum nema á landakortinu. Þeir hafa tilheyrt Húnaflóasvæðinu bæði samgöngulega, menningarlega, atvinnulega og alla vega.

Eftir þetta rann mikið vatn til sjávar. Forystumenn á norðanverðum Vestfjörðum horfðu bara á tærnar á sér og sáu ekkert nema Norðurleiðina. Í hana var mokað milljörðum króna í áratugi á núgildandi verðlagi, að þeirra forsögn. Svo allt í einu datt mönnum í hug að byggja brú á Önundarfjörð, brú á Dýrafjörð og grafa Vestfjarðagöng í stað Breiðadalsheiðar, sem opnuðust 1996, auk heilsársvegar yfir Gemlufallsheiði. Stórkostleg samgöngumannvirki sem hafa sannað gildi sitt, en eru því miður arðlaus að stórum hluta fyrir þjóðarbúið. Þá hefði auðvitað verið heppilegast fyrir alla Vestfirðinga að ljúka verkinu og halda áfram Vesturleiðina frá Þingeyri í Vatnsfjörð, 70 km leið. Gera Vestfirðina þar með að einni heild samgöngulega árið um kring og vinna sig út úr fjórðungnum um leið fyrir ekki neitt. Nei, það mátti ekki og voru það ógnvænleg mistök ofan á önnur mistök. Það getur hvert barn séð með því að líta á Vestfjarðakortið. Þess í stað lömdu menn hausnum við steininn og mokuðu milljörðum áfram í Norðurleiðina. Stórkostlegar vegabætur, en því miður á röngum stað miðað við heildarhagsmuni Vestfirðinga. Það munaði nefnilega um hverja sekúndu sem menn voru fljótari en áður að komast frá Ísafirði til Reykjavíkur á bundnu slitlagi. Ekkert spáð í tvær flugur. Þetta er ein hörmungarsaga. Því miður.

Og nú hefur Kristján gamli Möller seinkað Dýrafjarðargöngum. Það eru engir peningar til. Ólýsanleg vonbrigði segja steinhissa forystumenn á norðanverðum Vestfjörðum sem til skamms tíma sáu ekkert nema það úrræði helst að aka norður undir heimskautsbaug til að komast svo þaðan suður til Reykjavíkur. Þeir hafa fengið sinn vilja fram í því efni og núna vilja þeir endilega fara í Dýrafjarðargöngin. Þeir munu segja að við eigum heimtingu á Vesturleiðinni. Kannast menn við stílinn? Það er eins og ekkert hafi gerst. Svona vinnubrögð eru ekki traustvekjandi. Þau tilheyra liðnum tíma. Heimtufrekjuna skulum við leggja til hliðar og nota aðrar aðferðir til framgangs góðum málum. Það er hart að þurfa að segja það, en núna súpa Vestfirðingar seyðið af sínum eigin mistökum í samgöngumálum á landi. Sennilega þeim mestu frá upphafi vegagerðar á Íslandi.

Forystumenn á norðanverðum Vestfjörðum horfðu bara á tærnar á sér og sáu ekkert nema Norðurleiðina sem er líklega mestu mistök í vegagerð á Íslandi.

Úr Mbl. 05.05.2010

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband