30.8.2008 | 20:20
Firðirnir fallegu og fl
Í dag þurftum við að skjótast austur í Fjarðarhorn. Alltaf er jafn fallegt að keyra firðina, s.s. Vatnsfjörð, Kjálkafjörð, Kerlingarfjörð, Mjóafjörð, Vattarfjörð og Skálmarfjörð, þá skartaði Kollafjörðurinn sínu fegursta þegar komið var yfir Klettsháls. Ekki eru þeir síðri firðirnir síðsumars þegar haustlitirnir eru aðeins farnir að láta á sér kræla og reyniberin, hef ekki séð annað eins, náði mér í nokkur til jólanna, geymi þau í frosti og nota þau í skraut. Aldrei slíku vant sáum við enga erni en einn fálka, gæsirnar létu heldur ekki sjá sig, hafa sennilega verið í berjamó í þessu blíðviðri. Bændur á Barðaströnd voru á fullu í heyskap, sumir að safna saman rúllum aðrir að slá há. Upp um allar hlíðar var fólk í berjamó, þá var fólk við veiðar t.d. Í Haukabergsá og Arnarbýlu, einnig var hollið í Fjarðarhorni að tygja sig af stað til veiða eftir hádegishvíldina.
Í Kjálkafirði á austurleið keyrðum við fram á þrjá hlaupagarpa, þekktum við einn þeirra , Gunnlaug Júlíusson. http://www.reykholar.is/frettir/Haustlitahlaup_ur_Flokalundi_i_Bjarkalund
Þegar við vorum á vesturleið eftir smá spjall og kaffisopa í Horninu, mættum við þremenningunum á Eiðinu milli Kerlingar-og Vattarfjarðar.
Vegirnir voru þokkalegir, nema þessar eilífu holur fyrir Hörgsnesið og holurnar við brýrnar sem geta verið lífshættulegar, t.d. við brúna á Fossá. Kannski búið að friða klapparsköfurnar líkt og malarhaugana (ofaníburður) sem sumir hverjir eru jafnvel farnir að gróa upp.
Þegar heim var komið fórum við út að borða... á N1 í pylsu og coca.
Nokkrar myndir úr ferðinni
Hlaupagarparnir á Eiðinu
Í Kerlingarfirði
Reyniber, verða geymd í frysti til jóla
Í Mjóafirði
Holan við brúna á Fossá. Ath. að Ópalpakkinn í holunni er
RISAÓPALPAKKI UM 8 CM
Athugasemdir
Já, svo sannanlega er fallegt í fjörðunum á þessum árstíma. Hlaupararnir hafa fengið gott veður. Reyniberin eru falleg núna - rauðir klasar á flestum trjám.....ég er líka svo rík að eiga koparreyni sem ber hvít ber.........Viltu?
Bestu kveðjur vestur,
Sólveig.
Sólveig Ara (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 12:26
Já takk, væru falleg með þeim rauðu.
Kv. Guðný
Guðný , 31.8.2008 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.