Lausnarsteinn

Picture 012

Þennan stein (lausnarsteinn) fann Gísli Guðmundsson (f. um 1860 d. um 1940) á fjallinu fyrir ofan Hvestu í Arnarfirði.

Hann mun hafa verið um fermingu þegar hann fann steininn.

 

jon arnasonÍ Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá ýmsum náttúrusteinum, en svo nefnast einu nafni þeir steinar sem búa yfir töframætti. Þar er meðal annars sagt frá lausnarsteininum. Helsti kostur lausnarsteinsins er að hann leysir konu „sem á gólfi liggur vel og skjótt frá fóstri sínu, og þarf þá ekki annað en annaðhvort leggja hann á kvið hennar eða henni er gefið vatn, aðrir segja volgt franskvín hvítt að drekka, sem steinninn hefur legið í eða verið skafinn í”.

Lausnarsteinninn er því mikið þing, en það er ekki hlaupið að því að koma höndum yfir hann. Til að komast yfir lausnarstein þarf maður að fara í arnarhreiður á Vítusmessunótt, sem er 15. júní, og múlbinda ungana sem þar eru ófleygir. Þegar assan finnur ungana þannig stadda dregur hún allskonar náttúrusteina í hreiðrið sem hún heldur að geti létt múlnum af ungunum. Loks kemur hún með lausnarsteininn, sem hún ber að nefi unganna og losnar þá um múlinn. En nú þarf að hafa skjótar hendur, því ef maður nær ekki steininum á þessu augnabliki þá fer assan aftur með hann á fertugt djúp og sekkur honum þar niður á botn. En komist maður yfir lausnarstein, þarf að gæta hans vel svo hann varðveiti náttúru sína. Steininn skal geyma í hveiti og vefja hann í óbornu hvítu lérefti eða líknarbelg.

Jón Árnason segir enn fremur frá því að steinarnir hafi verið tvenns konar. „Sumir hafa ætlað, að steinar þessir væru aðrir hvatir en hinir blauðir, og ungi hinir blauðu aftur öðrum út af sér.” Úr hverju lausnarsteinninn er kemur ekki fram í þjóðsögunum, en Jón Árnason tilgreinir að Eggert Ólafsson hafi talið að það sem kallað hafi verið lausnarsteinn sé alls ekki steinn heldur “ávöxtur eða hnot af tré (Mimosa scandens) sem rekur hér og hvar upp með öðrum rekavið á Vesturlandi”.

Heimild:
Náttúrusögur, úrval úr þjóðsögum Jóns Árnasonar, Óskar Halldórsson sá um útgáfuna, Reykjavík 1975.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband