22.9.2007 | 07:34
Spurn
Friðrik Guðni Þorleifsson
(úr Lesbók Mbl. 6. September 1970)
Mér er spurn
Skyldi rómantíkin
vera farin
að gliðna eitthvað
á saumum?
Á þessari tæknivæddu
öld
þegar Rauðhetta
tekur leigubíl
með hassið til ömmu
sem hlýðir hugfangin
á úlfinn
hrækja raddböndunum
oní kassagítarinn sinn
þegar Þyrnirós
vaknar timbruð á hádegi
á sunnudögum
og rámar í prinsinn
útúrfullan í partíinu
kvöldið áður
sem sagt
á þessarri tæknivæddu
raunsæisöld
þegar stjúpmæðurnar
koma þeysandi
á hvítum kádiljákum
að frelsa drekann
úr klóm
dverganna sjö
er svar mitt
já.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.