Guðrún frá Sjöundaá (eftir hvarf Jóns)

Picture 273 (Small) 

Hvar er Jón ? Eg varla voga.

vegfarandi, að segja þér.

Hann er horfinn, dáinn – drepinn,

duldir vættir hvísla að mér.

Úr Skorarfjalli hróp eg heyri

hræðileg, þá nótt er dimm.

- Illum verkum örlög fylgja:

angist, kvíði, hegning grimm.


Á þöglu kvöldi eitt sinn eftir

yndisblíðan dag í vor,

hafgúuna heyrði eg syngja

harmaljóð við kalda Skor,

líkt sem væri blíð í bænum

barn að svæfa skerin við.

Hérna úti á ægisdjúpi

einhvern vantar, huggun frið.


Ó, mér finst sem illir andar,

umhverfis mig reiki hljótt,

og í myrkrum svífi svipir,

svefn er banna hverja nótt.

Eg er eins og kvik á kistu;

kvein mín vekja engan hljóm;

hér eg hefi, læst í læðing,

lesið sjálf minn feigðardóm.


Eg er ekkja, mist hef makann;

myrkrið tók hann frá mér burt,

hann er viltur, seldur, seyddur ;

segið engum manni hvurt.

Ó, eg veit hann flagðsins fremur

fólsku þrungin grimdarverk.

Bænir mínar engu orka,

ilskan hefir tök svo sterk.


Eins eg óska af veikum vilja;

vernda smáu börnin mín,

er eg sé í heljar hengjum

híma þar, sem voðinn gín.

Þeirra framtíð hrygg eg hræðist.

Hver mun þeirra líkn og vörn ?

Æ, æ, forðist myrkrið, myrkrið !

móðurlausu, viltu börn.


Maður, fát mitt fyrirgefðu,

firt mig hefir viti og ró

einhver voða heiftug hræðsla,

hverja ei fæ skilið þó.

Jú eg veit mín bani bíður,

bugar heilsu sultur megn,

og eg finn, að Helja hefir

hjartans fylgsni stungið gegn.


Vertu sæll ! Þau hlusta, hlusta.

Heyrirðu ekki fótatak ?

Eg er sem hjá Helju í haldi,

háðung skýlir kotsins þak.

Heyrðu grátinn, börnin bíða,

biðja mig að koma fljótt.

- Drottins náð oss verndi og verji -

vegfarandi, góða nótt.

 

                  Uppl. um höfund óskast




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband