18.6.2007 | 05:14
Hvert liggur þessi vegur?

Hvert liggur þessi vegur
sem þið leggið handa vélum
um löndin þver og endilöng,
um öræfi sem byggð?
Hvar er kirkja huldufólksins?
Hvar er klettur smárra dverga?
Hvar er lækurinn hjá bænum?
Hvar er lindin silfurskyggð?
Hvert liggur þessi vegur
sem þið leggið handa vélum?
Hvar er mýrarbýli jaðraka?
Hvar er mjaðarjurt og sef?
Hví heyrist ekki lengur
í hrossagauk og spóa?
Hví stökkva engin köll út
um stelksins rauða nef?
Hvert liggur Þessi vegur
sem þið leggið handa vélum?
Hvar er þögnin? Hvar er kyrrðin
sem þér kenndi að dreyma og þrá?
Hvar er lágvær þytur bjarka?
Hvar er blómkyljunnar vísa?
Hvar er löðurhvíti fossinn
sem þú lærðir söng þinn hjá?
Í gráu malarryki
við gnatan stáls og hjóla
að kvikubúum lífs þíns
hefur komið einhver styggð.
Hvert liggur þessi vegur
sem þið leggið handa vélum
um löndin þver og endilöng,
um öræfi sem byggð?
Ólafur Jóhann Sigurðsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.