15.6.2007 | 15:28
Hið kvekkta tré
Snemma í vor gægðist tré af sjálfsdáðum og vegna sólar
úr berki sínum,
eftir að það hafði verið niðursokkið í draum sinn
í allan vetur.
Þegar tréð fann hlýju, í apríllok, áræddi það að bruma,
fálmaði með lauf út í vor sem draumarnir sögðu því frá ...
En hret kom og tré er á vissan hátt annað en snigill,
það gat ekki dregið laufið aftur inn og kól.
Sólin endurtók kossinn og sagði árvisst með yl mánuði síðar:
Þér er óhætt að þrífast, tré, nú er loks komið sumar.
En það stóð samt innan um blóm, hálflaufgað fram á haust.
Vetur er tími hugsana, drauma og svefns:
Trén dreymir þá í myrkum safa nýja tíð, ljósa,
handan við langa leiðslu
meðan dimman ríkir og sú orka fæst sem vekur lífið hvert vor
og leiðir það inn í gleymsku gleði og sólar.
Laufgast tréð þá næst, glatt og grænt og frjálst,
eða hikar það héðan í frá
og geymir laufhafið innra með sér, svart,
skorpið og leynt, hið hvekkta tré.
Guðbergur Bergsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.