Hollt er heima hvat

Munstur0002Munstur0003

 

 

Hollt er heima hvat

Það þurfti ekki endilega að fara í verslun til aðfanga þegar halda skyldi veislu

Eftir Ara Ívarsson frá Melanesi

Þegar liðið er langt á nóvembermánuð fara sumar forsjálar húsmæður aðskipuleggja innkaupin til jólanna. Þar eru eflaust hátt á listanum aðföng til sjálfrar jólamáltíðarinnar. Sjálfsagt eru margir með það á hreinu hvað á að borða á jólakvöldið. Víða eru til hefðir sem ekki verða brotnar. Til dæmis höfum við ávallt steiktan lambshrygg með tilheyrandi. Svo fastur siður er þetta, að sum börn okkar hafa tekið hann upp og mega ekki til þess hugsa að verða að lifa jól án hans. Eins er það með Þorláksmessuna, þar eru alveg jafn sterkar hefðir og á sjálfum jólunum. Við hjónin höfum orðið að standa í því oftari en einu sinni að koma kæstri skötu og hangikjöti, ásamt lambahrygg, til tveggja heimsálfa, það sterkar kröfur eru gerða um hefðina á þessum tveim máltíðum.
  
Komum vestur á Rauðasand fyrir sextíu árum. Þar var búið að sumu leyti eins og tíðkast hafði um árhundraða bil. Sjálfsþurftarbúskapurinn var enn við lýði að nokkru leyti. Þar af leiddi að hátíðaréttir voru að miklu leyti heimafengnir, og það var ekkert áhyggjuefni hvernig innkaup ætti að gera í matföngum, enda lítið úrval veislurétta í þeirri verslun sem mest var skipt við. En bökunarvörur voru þó auðvita sóttar í verslun kaupfélagsins litla sem Rauðsendingar ráku á Hvalskeri. Lengra þurfti ekki að fara til að geta haldið jólin með pompi og prakt. En það þurfti þó sinn undirbúning að framleiða þann mat sem neytt var um hátíðirnar.
  
Þó það sé nú ekki jólalegur staður verðum við að líta aðeins á blóðvöllinn þegar heimaslátrunin fór fram. Þar var slátrað til heimilisins einhverntíma seint um haustið og valinn til þess góður dagur, ef þess var kostur. Þar var slátrað gamalám, kanske einhverjum ungum ám, geldum, stöku sinnum sauð og hrútum og eftir vill einstöku dilkum. Þeir voru fyrst og fremst innlegg í sláturhúsið og á þeim hvíldi gjaldþol heimilisins.
  
Þegar tekið var innanúr má segja að hafi verið tekið tillit til hátíðanna með því að taka magála af öllum vænni kindum. Þá var líka ákveðið, hvaða skrokkar færu í reyk og hverjir í salt.
  
Við skulum fylgja þeim sem settir voru í reykinn. Skrokkarnir voru látnir kólna uppihangandi og fengu oft að hanga einhverja daga. Síðan voru þeir hlutaðir sundur og það var gert eftir ströngum reglum. Skrokkurinn var tekinn þvers í sundur milli 4. og 5. rifs. Hét það krof sem fyrir aftan var, en hitt skammrif. Skammrifin voru svo höggvin þannig að rifin voru tekin sundur þétt við hrygginn annars vegar, en bringan fylgdi hinum hlutanum. Bringan var einnig tekin af þeim skrokkum sem ætlaðir voru í saltið, og fór hún ætíð í reyk. Krofið var tekið og lagt á einhvern hlera. Þar voru þessi fjögur rif sem fylgdu því höggvin frá hryggnum en ekki fjarlægð og lífbeinið sagað sundur. Mátti þá gera krofið flatt og fór minna fyrir því. Sett var spýta milli hæklanna mátulega löng og það sterk að hengja mætti krofið upp á henni í reykkofann. Sumir reyndu líka að strekkja holdið yfir rifið sem var næst skurðinum, vitandi það að eftir reykingu og síðar suðu myndi þetta rifbein vera án nokkurs holds. Þetta var einnig gert við rifin á skammrifjunum. Það var ekki að ástæðulausu að þessi jaðarrif áttu sér nafnið „kuldarif“ og vísaði það til þess tíma, þegar skammtað var og þótti kuldalegt að fá þau í skammtinn sinn. Kjötið var þurrsaltað með grófu salti, þar sem krofið lá flatt á hleranum og skammrifin lögð ofan á. Stungið var með mjóum hníf í þykkustu vöðvana og salti troðið í þá. Síðan mátti setja næsta skrokk ofan á þann fyrsta. Ef ekki var frost þá gaf þessi aðferð við söltunina nokkuð góða raun, og rann saltið í pækil sem settist fyrir í krofinu. Var stundum farið og pæklinum ausið yfir kjötið á meðan það var látið vera þarna. Eftir nokkra daga var kjötið svo hengt upp í reykkofann og þar lak pækillinn af því. Stungið hafði verið „þuma“ í hækla skammrifjanna og þau hnýtt saman með snærisspotta sem þau voru síðan hengd upp á.Góður bóndi vissi ávallt af hvaða kind þetta og hitt krofið var og var ekki í vandræðum að velja það besta til hátíðanna.
  
Þegar hér var komið sögu hafði húsmóðirin haft sín afskipti af tilvonandi magál. Þið vitið kanske ekki hvað magáll er? Hann er kviðurinn af kindinni sem fjarlægður hafði verið þegar tekið var innan úr henni. Var hann skorinn meðfram rifjum og hrygg allt aftur í klof, og „klettið“ sem er fitustykki aftast á kviðnum látið fylgja honum. Magállinn var snöggsoðinn í mjög söltu vatni. Heitur úr suðunni var hann lagður í trog og saltað bæði undir og ofan á. Setja mátti fleiri í stæðu en betra var að einhver sléttur flötur væri á milli. Efst var síðan sett farg það mikið að allt soð væri örugglega pressað burt. Eftir að hann var orðinn kaldur var saumað utan um hann eitthvert léreftsstykki og þar með var hann settur í reykinn.
  
Reykkofinn var nú ekkert merkilegt hús, torfkofi með árefti og torfþaki. Sennilega fengi hann ekki hrós heilbrigðisyfirvalda núna. Þarna var kjötið hengt upp,og síðan mátti kveikja upp í hlóðunum sem voru í einu horninu.
  
Oftari var komið að heiman með glóðarköggul úr eldavélinni og hann settur í hlóðirnar. Köggullinn sá var mórinn sem notaður var til eldiviðar heima. Í glóðina var síðan sett sambland af mó, sauðataði og stundum lyng sem sett var ofaná. Ef ekki var til lyng var oft notast við moðsalla og hélt það eldinum í skefjum. Ekki var verra að lyngið og jafnvel sumt af eldiviðnum væri aðeins rakt, þá logaði seinna og reykurinn varð meiri. Til þess var nú líka leikurinn gerður.
  
Fljótlega fylltist kofinn af reyk og varð ekki farið inn í hann sakir reykjarkófsins. Víða rauk oft út með bæði hurðinni og stöku gati sem var ef til vill á þekjunni, eða óþéttum gáttum. Mér er enn í minni hvað lyktin var sterk og góð sem barst æði víða á kyrrum frostdögum.
  
Þarna var kjötið svo í sennilega ekki minna en þrjár vikur og taldist þá fullreykt. Var það látið hanga í kofanum enn um sinn.
  
Á þessum árum, fjórða áratugnum, var enn borðað þrímælt eins og sagt var, á Rauðasandi. Var þá drukkinn kaffisopi þegar menn komu á fætur. Milli klukkan níu og tíu var morgunmatur, oft hræringur eða hafragrautur með slátri. Á hádeginu var drukkið kaffi, en aðalmáltíð dagsins var nónmaturinn um kl. Þrjú. Miðaftanskaffi klukkan sex, og kvöldmatur klukkan átta til níu þegar útistörfum var lokið. Ekki var borið brauð með kaffinu nema stæði sérstaklega á. Þessi venja lagðist niður á stríðsárunum og var þá farið að borða tvímælt, svipað og enn tíðkast. Þessi venja að borða þrímælt var þó leyst upp á hátíðisdögunum um jól og nýár, og skulum við nú hittast á Þorláksmessu.
  
Þá var soðið það hangikjöt sem ætlað var til jólanna. Faðir minn sótti það í kofann og hjó í pottinn. Þótti þá mikið „rarited“ að eiga kjötsax, en ég man þó eftir því að það var aðeins til skaröxi, sem er slæmt áhald til þeirra hluta.
  
Allt kjötið var höggvið í bita, þá tíðkaðist ekki að sjóða heil læri, eða stærri stykki. Einnig voru teknar til bringurnar og helst ein á hvern fjölskyldumeðlim. Nú voru þær bringur skornar af skammrifjunum, þær sem þeim fylgdu og einnig teknar þær sem höfðu verið reyktar sér. Allt þetta kjöt var soðið en sakir þess að bringurnar tóku ekkert smáræðis pottapláss varð oftari að taka fram þvottapottinn til þessarar stórsuðu. Ef skata var til, þá var hún soðin á nóni og borðuð með kartöflum og mörfloti, því sem nú er kallað „vestfirskur hnoðmör“. Þessi skata var þessi stóra en ekki tindabikkja. Þá voru ekki vandræði að fiska þessa skötu og tíðkaðist að fara með haukalóð út fyrir Blakkinn og þar gátu Patreksfirðingar veitt skötu eins og hver vildi.
  
Það var svo um kvöldið að hver maður fékk sína bringu í heilu lagi. Mjög voru þær misstórar og það hvíldi sú kvöð á þessari bringuúthlutun að sauðamaður, ef einhver var, átti skilyrðislaust að fá þá stærstu og feitustu. Ef enginn var formlega titlaður sauðamaður, sem var nú raunar hætt fyrir löngu, þá átti hann sér arftaka sem var sá sem sinnti fénu mest.
  
Reykt bringa er ljúfmeti. Fitan af henni er af öðrum toga og betri en annarsstaðar á skrokknum. Nú er jafnvel minnsta bringa stærri en svo að hún sé borðuð í einu, en gert var ráð fyrir að menn hefðu þær sem aukabita eins lengi og hverjum þóknaðist. Voru þær geymdar inn í búri og gátu menn gengið í þær þegar þá lysti. Skáru menn fangamark sitt í hana svo þekktist frá öðrum. Venja var að borða þær með sjálfsskeiðungum eftir að þær kólnuðu og þótti koma fram hversu menn væru snyrtilegir þegar þeir unnu að bringunni. Alltaf var byrjað aftan á henni og skorinn frá einn og einn geislungi og etið af honum. Einnig var um leið borðað kjötið af sjálfu bringubeininu og skorið þvert jafnt og gekk á geislungana. Segja mátti að bringan batnaði eftir því sem gekk á hana. Sjálfur bringukollurinn er þykkastur og þar er fitan seigust og „bráðfeit“ með sérstöku bragði. Þeir sem voru neyslugrannir gátu treint sér sína bringu fram á næsta ár.
  
Hangikjötið sem soðið var til jóla voru að mig minnir helst læri. Skammrifin voru svo notuð á gamlárskvöld.
  
Á aðfangadag var eins og við er að búast í ýmsu að snúast við þessi vanalegu störf, en þau hafa verið með meira móti hjá húsfreyjunni og var hún nú ekki óvön því að sjá vart fram úr verkum sínum. Það var ekki matur að hefðbundnum hætti þann dag og lifðu menn við leifar Þorláksmessu fram á kvöldið, enda af nógu að taka, bæði skötuafgöngum og bringunni.
  
Reynt var að ljúka störfum fyrir klukkan sex, því þá taldist vera „orðið heilagt“ eins og sumir orðuðu það. Flestir hlýddu á messuna, en móðir mín gerði það eflaust á hlaupum því ekki var um hvíld hjá henni að ræða allt kvöldið.
  
Að messu lokinni var síðan sest að jólaborðinu og á því var hangikjötið sem soðið hafði verið daginn áður. Með því voru hafðar kartöflur í jafningi. Einnig voru á borðum þessar mjög svo góðu hveitikökur og „bögglasmjör“ þ.e.a.s. Heimatilbúið smjör. Ekki var nú svo að smjör væri ávalt á boðstólum, en þess var gætt að vera ekki smjörlaus um hátíðarnar.
  
Hveitikökunum fylgdi svo rúllupylsa, og þess ber að geta að í mínum huga er rúllupylsa ávallt reykt.
  
Oft var einnig drukkin rabarbarasaft með þessu. Ef hún er hæfilega blönduð er hún hinn ágætasti drykkur.
Og þá er komið að þeim eina rétti sem ekki var heimafenginn en það var hrísgrjónagrauturinn sem borin var á eftir.
  
Hrísgrjónin, hveitið, sykurinn og kanelinn ásamt saltinu í kjötið og kryddinu í rúllupylsuna voru það eina sem aðkeypt var í þessa máltíð, og svo mun víðar hafa verið til sveita þá.
  
Þó allir væru nú orðnir mettir þá var samt til siðs að halda súkkulaðiveislu síðar um kvöldið. Þar var tjaldað öllu sem til var af sparibakstri, og það var ekki svo lítið sem húsfreyjur þar vestra gátu á þeim vettvangi þegar þær vildu við hafa.
  
Mikið úrval var á boðstólum af smákökum, og eru mér sennilega minnisstæðastir hálfmánarnir, helst gegnblautir af sultu. Seinna komu svo „eggjarauðukökur ömmu á Melanesi“ sem ég hefi hvergi hitt fyrir nema hjá afkomendum móður minnar eða tengdafólki hennar.
  
Formkökur voru af mörgum gerðum og svo það sem gekk undir nafninu terta, en er nú kanske þekktari undir sennilega vesturheimska nafninu „randalín“.
  
Það var mikill munur á þessum bakstri milli bæja, og trúlega hefði maður getað þekkt með vissu hvaða kona bakaði þessar eða hinar kleinurnar, og eins var það með randalínuna.
  
Það var sérstakt við þessa súkkulaðidrykkju að þá voru notaðir sparibollarnir en það skeði aðeins á stórhátíðum.
  
Móðir mín hafði eignast tvær „skrúfur“ af næfurþunnum postulínsbollum, þessum hvítu með bláa kornblóminu. Þykir mér líklegt að bróðir hennar hann Dóri hafi rétt þá að henni einhverntíma þegar hann kom úr siglingu.
  
Þeir voru geymdir í eldhússkápnum og settir í tvær stæður eða tvær „skrúfur“ en það var þegar fjórum bollum var krækt saman á sérstakan hátt ofan á undirskálunum.
  
Við skulum svo aðeins staldra við á gamlárskvöld á Melanesi svona fimmtíu árum áður en stórmarkaðirnir fóru að láta til sín taka. Þá tíðkaðist að skammta hverjum hverjum og einum á diskinn, en sá siður var löngu aflagður nema í þessu eina tilfelli. Hangikjötið var þar uppistaðan eins og við er að búast og nú höfðu skammrifin verið sett í pottinn. Kjötið var bitað eins og áður nema að því leyti að rifjastykkin voru soðin heil og skorin sundur eftir að þau voru orðin köld. Fékk þá hvert rif að halda sér og skildi maður þá af hverju jaðarrifin hétu kuldarif.
  
En þá var einnig notaður magállinn og var hann ávalt skorinn í renninga þvert yfir kringlóttan flötinn. Var hver renningur svona tveir sentimetrar á breidd. Einnig var reyktur lundabaggi niðursneiddur sem notaður var sem álegg. Þessir lundabaggar voru ekta, gerðir úr ristum ristlum, lundum af skrokkunum og þindin saumuð utanyfir. Eftir að hætt var að nota ristlana eru lundabaggar ekki svipur hjá sjón. Hveitikökurnar voru þarna einnig og væn smjörklípa. Þessar kökur tíðkuðust aðeins á Vestfjörðum, og sá sem ekki hefur borðað þær nýbakaðar, það heitar að ekki er hægt að smyrja smjörinu á þær, heldur taka smjörið og láta á hvern munnbita, hann veit ekki hvað hveitikaka er.
  
Þarna var borinn matur fyrir hvern og einn svo nam tveim til þrem máltíðum, það mikið var á hverjum diski. Sem sagt „hrokaði diskar“. Ekki vissi ég til að þessi siður væri víða um hönd hafður, en þó er mér nær að halda að fleiri á Rauðasandi hafi farið líkt að. Eflaust hefur þetta verið síðustu leifarnar af margfrásögðum nýársskammti, sem þekktur var um langt skeið fyrr á öldum. Þessi sérstæða gamlársmáltíð mun hafa tíðkast nokkuð fram á fimmta áratuginn.
  
Allt hafði annan róm áður í páfadóm
  
Sennilega þætti mörgum þunnur þrettándinn, að upplifa þesskonar jólamáltíð eins og hér er lýst. En samt er nú svo að sumir þessir siðir eru enn við lýði. Enn verka menn reyktar bringur og gerð magála hefur nokkuð rutt sér til rúms aftur, eftir að aðeins einstaka maður var ekki búinn að gleyma hvernig það var gert. Magálar voru næstum eins vinsælir og konfekt er núna.
  
Margt hefur verið gert til að gamlir siðir falli ekki í gleymsku. Safnað hefur verið öllum þeim fróðleik sem hægt hefur verið að ná í og stór hópur manna hefur numið þjóðháttafræði og starfar við slíkt, og er það vel.
  
Við höfum ekki efni á að gleyma fortíðinni.
  
Þessi grein birtist í Ísfirðingi jólin 1998

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir að endurbirta þessa grein.

Agla (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 16:07

2 identicon

Mikið ofsalega er gaman að lesa þessa grein, þar er svo margt breytt á ekki lengri tíma. Takk fyrir mig.

Alda Hlín (IP-tala skráð) 21.12.2010 kl. 17:46

3 identicon

Góð grein um jólasiði á Rauðasandi fyrir ca. 50-60 árum

Indiana B Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband